Umhverfisstefna
Pure North byggir á viðskiptalíkani sem knúið er áfram af sjálfbærni. Hins vegar þýðir það ekki að starfsemin okkar hafi ekki áhrif sem við þurfum að takast á við. Sem ört vaxandi sprotafyrirtæki gerum við okkur grein fyrir mikilvægi þess að byggja traustan grunn og skilja stöðu okkar í dag til að geta vaxið á sjálfbæran hátt.
Þess vegna höfum við ákveðið að árið 2025 að kortleggja öll umhverfisáhrifin okkar!
ftir að við höfum reiknað kolefnisspor á plastframleiðsluna, ætlum við að reikna kolefnisspor fyrirtækisins fyrir árið 2024. Niðurstöðurnar munu hjálpa okkur að móta skýra áætlun og forgangsraða aðgerðum okkar í þeim flokkum sem hafa mest áhrif. Við erum staðráðin í að deila niðurstöðunum með viðskiptavinum okkar og samstarfsaðilum til að stuðla að gagnsæi og leggja okkar af mörkum í sameiginlegu verkefni við að kortleggja kolefnisspor.
Þrátt fyrir að við notum endurnýjanlega orku í framleiðsluferlum okkar, þá hefur hver orkugjafi áhrif. Þess vegna erum við að greina orkunotkun okkar til að finna hvar við getum gert áhrifaríkastar breytingar til að draga úr henni.
Hjá Pure North trúum við að framtíðin sé hringlaga. Við vinnum á hverjum degi að því að umbreyta úrgangi í verðmæti – á sjálfbæran, orkusparandi og umhverfisvænan hátt.
Við nýtum íslenskan jarðhita og hreint vatn til að endurvinna plast sem fellur til á Íslandi án þess að nota jarðefnaeldsneyti eða skaðleg efni. Með þessari aðferð höfum við þróað einstakt ferli sem skilur sig frá öðrum – vistferilsgreining og EPD-staðfesting sýna að kolefnisspor endurvinnslu okkar er 82% lægra en í sambærilegum evrópskum ferlum. Við hófum í lok 2024 endavöruframleiðslu úr plastinu og erum því að koma plastinu sem við endurvinnum aftur inn á markaðinn. Fyrsta skrefið eru 5 lítra brúsar og fleiri umbúðir eru væntanlegar á árinu 2025.
Við nýtum einnig eigin hugbúnað, Úlla, til að greina úrgang, bæði magn og kostnað, og styðja fyrirtæki við að ná markmiðum sínum í úrgangsmálum. Með þessu hjálpum við samstarfsaðilum okkar að verða meðvitaðri og ábyrgari í eigin rekstri. Þetta mælum við einnig í okkar rekstri og pössum upp á að allt rusl sem verður til hjá okkur fari í bestan farveg.
Við leggjum áherslu á:
- Lágmörkun kolefnisspors í gegnum orkusparandi tækni og náttúrulega orkugjafa.
- Hringrásarhagkerfi þar sem hráefni fá nýtt líf
- Nýsköpun og stafrænar lausnir til að hámarka umhverfisárangur
- Fræðslu og innblástur fyrir starfsfólk svo allir taki þátt í sjálfbærni, bæði í vinnunni og heima við.
- Gagnsæi og ábyrgð gagnvart náttúrunni, starfsfólki, viðskiptavinum og samfélaginu
Við sjáum ekki úrgang – við sjáum möguleika. Með traustu samstarfi, skýrum markmiðum og endalausri forvitni höldum við áfram að móta sjálfbæra framtíð.
LESA MEIRA UM OKKAR UMHVERFISSTEFNU
Vistferilsgreining á endurvinnsluferli Pure North
Plastmengun er alvarlegt umhverfisvandamál af mannavöldum sem fer sívaxandi. Plastmengun er farin að hafa áhrif á vistkerfið í heild og ekki síst vistkerfi hafsins. Íslendingar eiga mikið undir í sjávarútvegi og ferðaþjónustu með ósnortna náttúru og nú ógnar þessi þróun afkomu okkar og velferð.