Viðburðarríkt 2024

Viðburðarríkt 2024

23. des. 2024

Nú þegar nýtt ár er að renna í garð þá er gaman að líta yfir farin veg. Það gekk á ýmsu á árinu hjá okkur í Pure North. Við upplifðum bæði spennandi hæðir og nokkrar erfiðar lægðir eins og er við að búast í nýsköpun og þróunarverkefnum. Liðið ár hefur semsagt vægast sagt viðburðarríkt og langar okkur að segja ykkur viðskiptavinum , samstarfsaðilum og vinum stuttlega frá því sem við höfum verið að gera.

STÓRVERSLANIR LEIÐA LESTINA
Við héldum áfram samstarfi við SAMKAUP sem tók STÓR skref í úrgangsmálum hjá sér sem var virkilega gaman að taka þátt í og fylgjast með þeirra árangri, bæði í samdrætti í myndun úrgangs, betri flokkun og úrgangsmeðhöndlun á landsvísu.

PURE NORTH Í NOREGI

Spennandi skref voru tekin á árinu þegar við opnuðum Pure North í Noregi og er Margrét Einarsdóttir framkvæmdastýra félagsins, en hún er búsett í Haugesund. Í lok árs skrifuðum við undir samning við stórfyrirtækið AIBEL um þjónustu og ráðgjöf í úrgangsmálum. Einnig hafa verið unnin úttektarverkefni fyrir fleiri Norsk fyrirtæki á árinu, og byrjar því ferðalagið okkar í Noregi vel.

INNLEIÐING STÓRRA JARÐGERÐARKERFA

Við innleiddum stór jarðgerðarkerfi bæði í Bönunum og Innnes á árinu sem gekk ekki snuðrulaust fyrir sig en með þolinmæði og útsjónarsemi fundum við nýjar lausnir og nú eru bæði fyrirtæki að hefja ummálsminnkun og jarðgerð innanhúss á ónýtum matvælum.

ENDURVINNSLAN - HRINGRÁS Í PLASTI

Við lentum í bruna í plast endurvinnsluverksmiðjunni okkar í Hveragerði í sumar en betur fór en á horfðist og við náðum að koma framleiðslu aftur í gang eftir smá stopp.

Það stærsta sem gerðist í endurvinnslunni í Hveragerði var stór fjárfesting í brúsgerðaravél sem mun gera okkur kleift að skapa alvöru hringrás á plasti á Íslandi, þar sem endurunnið hráefni fer strax í framleiðslu á vörum fyrir íslenskan markað. Ótrúlega spennandi verkefni sem mun breyta leiknum og skapa alls konar möguleika. Við erum að koma vélinni af stað og stefnum á að koma fyrstu vörum á markað  í byrjun árs 2025.

VINNA MEÐ SVEITARFÉLÖGUM
Í byrjun árs hófum við samstarf við Skeiða- og Gnúpverjahrepp sem eftir úrgangsúttekt hjá okkur, tók það stóra skref að gjörbreyta fyrirkomulagi á söfnun og jarðgerð lífræns úrgangs frá heimilum í sveitarfélaginu. Í stuttu máli taka nú íbúar virkari þátt í flokkun og söfnun, svo er allur lífrænn eldhúsúrgangur jarðgerður innan sveitarfélagsins. Það verkefni hefur gengið vonum framar og er sýnisdæmi fyrir önnur sveitarfélög í svipuðum hugleiðingum.

Við gerðum einnig ítarlega skýrslu fyrir Samband íslenskra sveitafélaga þar sem við greindum úrgangsmál fimm sveitarfélaga og urðum margs vísari á leiðinni um hvað má gera betur. Hægt er að skoða skýrsluna hér .

Einnig erum við með verkefni á dögunum með fleiri sveitarfélögum sem eru að taka úrgangsmálin föstum tökum.

HIN FULLKOMNA HRINGRÁS
Krónan hóf að jarðgera ónýt matvæli í verslunum sínum og eru nú jarðgerðarvélar í 5 verslunum á höfuðborgarsvæðinu og er á áætlun að setja slíkt í allar Krónuverslanir á næstu misserum. Krónan setti svo á markað Krónumoltu síðasta vor þar sem viðskiptavinir gátu verslað einstaklega næringarríkan áburð til að rækta með, búin til í verslunum Krónunnar.

ÚRGANGSÚTTEKTIR BÆÐI SPARA OG MINNKA KOLEFNISSPOR
Við gerðum úrgangsúttektir í mörgum flottum fyrirtækjum, stofnunum og sveitarfélögum sem vildu fá yfirsýn yfir úrgangsmálin, þar á meðal Háskóla Íslands, Brimborg, Borgarbyggð, Suðurnesjabær, Húnabyggð, Midgard Adventure, Gæðabakstur, Múlakaffi ofl.

Þróun á úrgangs hugbúnaðnum okkar ÚLLA var í fullum gangi á árinu og var bætt við ýmsum nýjum fítusum og QR kóða kerfi sem mun lækka kostnað í losunum, svo eitthvað sé nefnt.

Hugbúnaðurinn með hjálp sjálfbærniráðgjafa hafa sparað fyrirtækjum tugi milljóna með því að gefa þeim innsýn inn í úrgangsmálin og á sama tíma minnkað kolefnisspor þeirra.

PLASTEININGAR & VOTTANIR

Við hófum einnig sölu á plasteiningum (e. plastic credits) sem svipar til kolefniseininga og eru vottaðar frá alþjóðlega fyrirtækinu VERRA. Þessar einingar gera fyrirtækjum kleift að sýna framleiðendaábyrgð í verki en fyrir það plast sem fyrirtæki setur á markað t.d. sem umbúðir getur sama fyrirtæki, keypt 1 plasteiningu hjá okkur og þar með tryggt endurvinnslu á 1 tonni af plasti. Við erum fyrsta plastendurvinnslan í Evrópu sem fær þessa vottun eftir langt og strangt ferli og nú geta fyrirtæki fjárfest í slíkum einingum.

Við erum nú komin með alþjóðlega vottun EPD (Environmental Product Declaration) ásamt vottunum um lok úrgangsfasa frá Umhverfisstofnun á lífrænan úrgang og plastendurvinnslu.

BREYTING Á TEYMINU

Við styrktum teymið á árinu, bættum við starfsfólki og breyttum skipuriti félagsins. Þar var helst að Börkur Smári umhverfisverkfræðingur sem hefur starfað hjá Pure North um árabil tók við sem rekstrarstóri endurvinnslunnar í Hveragerði og Dagný Berglind Gísladóttir kom inn sem öflugur verkefnastjóri sölu- og markaðsmála í hugbúnaðar og ráðgjafaskrifstofuna í Grósku. Ég er óendanlega stoltur af teyminu og spennandi ár framundan þar sem mörg spennandi verkefni eru á döfinni.

Að lokum vil ég þakka öllum okkar viðskiptavinum, velunnurum, gestum okkar í Hveragerði og Grósku í Reykjavík, samstarfsaðilum hérlendis og erlendis fyrir árið sem er að líða og hlökkum til áframhaldandi samstarfs á næsta ári. Megi nýsköpun og þróun ná flugi og tryggja meiri verðmætasköpun á Íslandi!

jólakveðjur,

Sigurður Halldórsson, Framkvæmdastjóri Pure North