Stór hluti plasts í fjörum landsins íslenskt

Stór hluti plasts í fjörum landsins íslenskt

20. nóv. 2018

Vísbending er um að mikill hluti af því plasti sem finnst í fjörum landsins sé úrgangur sem orðið hefur til hér á landi. Þetta segir Sóley Bjarnadóttir, sérfræðingur frá Umhverfisstofnun. Úttektin byggir á árunum 2016 og 2017. Sóley vaktar sjálf fjörurnar á Seltjarnarnesi.

Fjallað er um málið á vef stofnunarinnar

„Ég myndi segja að það er augljósara að ruslið komi frá landi hér í Bakkavík en það rusl sem finnst t.d. á Hornströndum og Skagaströnd, það er meira veiðitengt rusl og erfiðara að átta sig á því hvort það komi frá íslenskri útgerð eða ekki. En það er sem sagt í rauninni það sem á eftir að gera betur er að skoða nánar uppruna allra hluta sem við finnum.“

Stór hluti af því rusli sem finnst komi frá landi, eins og til dæmis flöskutappar, matarumbúðir, sælgætisbréf, haglabyssuhylki og blautklútar. Sóley rekur blautklútana til neyðarlosunar í Faxaskjóli 2017. Á þessu ári séu blautklútar enn að finnast í fjörunum í nágrenninu þrátt fyrir að Veitur hafi staðið fyrir hreinsun. „En þetta virðist vera alveg ógurlegt magn sem fer gegnum skolphreinsikerfið okkar þegar það er svona neyðarlosun og sjórinn virðist geyma þessa klúta og svo skolast þeir upp á fjörurnar,“ segir Sóley í samtali við fréttastofu.

Sóley leggur áherslu á að úttektin gefi aðeins vísbendingu um uppruna plasts í fjörum landsins, þetta þurfi að rannsaka frekar. Til dæmis sé ekki hægt að rekja uppruna plastbrota sem fundist hafi í fjörum.

„Það í rauninni sýnir okkur hversu endingargott plastið er. Það gæti hafa verið í hafinu í lengri tíma en brotnar alltaf í minni og minni hluta og  á endanum breytist í örplast.“ 

Hún telur að sölubann á plastburðarpokum sé engin allsherjarlausn en rökrétt skref til að breyta hugsun og hegðunarmynstri.

Eðlilegt sé að Íslendingar taki þátt í alþjóðlegu átaki til að draga úr notkun á einnota plasti. Íslendingar séu neyslufrekir í samanburði við önnur lönd og mikill úrgangur fellur til vegna þess. Íslendingar þurfi að horfa til þess og axla ábyrgð. „Hugsa áður en maður ætlar að kaupa eitthvað hvort maður þurfi á þessu að halda. Ef þú ert að kaupa þér hlut í plastumbúðum, að flokka allt rusl frá þér, það breytir strax mjög miklu.“