Umfjöllun í Bændablaðinu
Á dögunum var góð umfjöllun í Bændablaðinu um endurvinnslu á plasti og þá þar helst heyrúlluplasti því enn er verið að senda 24% af því erlendis til endurvinnslu, sem við gætum vel endurunnið í Hveragerði. Hér er brot úr greininni:
„Íslenska endurvinnslufyrirtækið Pure North í Hveragerði, stofnað árið 2016, endurvinnur í dag megnið af því heyrúlluplasti sem til fellur á Íslandi eða upp undir 2.000 tonn á ári. Er það eina fyrirtækið á Íslandi sem endurvinnur plast að fullu. Börkur Smári Kristinsson er nýsköpunar- og þróunarstjóri Pure North. Hann segir að mikið vatn hafi runnið til sjávar í frágangi og meðhöndlun á heyrúlluplasti frá því að fyrirtækið hóf starfsemi. „Við erum að sjá mikinn mun á viðhorfi til flokkunar og endurvinnslu og þar hafa bændur tekið stór skref í að bæta umgengni og meðhöndlun á heyrúlluplasti eftir að hægt var að endurvinna plastið á Íslandi.“ Hann telur þó að hægt sé að gera enn betur þar sem stjórnvöld hafi sett fram skýra sýn um að efla skuli innlenda endurvinnslu. „Þetta er stöðug vegferð sem við erum í. Hvort sem um er að ræða heyrúlluplast eða aðra strauma af efnum sem falla til í samfélagi okkar. Við erum á fleygiferð inn í hringrásarhagkerfi og stór hluti af því er að geta endurnýtt og endurunnið efni sem falla til í okkar daglega lífi. Hvatinn til að sækja þessi efni, meðhöndla þau, flokka og skila til endurvinnslu er mjög stór þáttur í að þetta geti gengið upp,“ segir Börkur og tekur fram að flutningsjöfnun sé óhemju mikilvæg.
„Að geta jafnað tækifæri allra að skila inn til okkar án þess að þurfa hreinlega að borga með því er eitthvað sem við börðumst mjög lengi fyrir. Það náðist loks í gegn fyrir um tveimur árum. Við erum því komin á þann stað að nú er flutningsjöfnun greidd frá öllum þessum stöðum og því fjárhagslegur hvati fyrir bændur, sveitarfélög og aðra aðila, sem vilja safna heyrúlluplasti, að koma því í endurvinnslu hjá okkur,“ segir Börkur
LESTU GREININA HÉR Í HEILD SINNI: Bændablaðið