placeholder image

Áætla að örplast sé í 90 prósentum borðsalts

Sigurður Halldórsson - 17. okt. 2018

Frétt frá RÚV:

Ætla má að örplast sé að finna í allt að 90 prósentum matarsalts sem selt er í heiminum. Þetta er niðurstaða rannsóknar suður-kóreskra vísindamanna og samstarfsmanna þeirra úr röðum Austur-Asíudeildar Greenpeace. Tekin voru sýni úr 39 algengum og vinsælum tegundum borðsalts vítt og breitt um heiminn. Örplast var að finna í 36 þeirra.

Ein af megin-niðurstöðum rannsóknarinnar er sú, að mikil fylgni er milli plastmengunar á framleiðslusvæði saltsins og örplastsinnihalds þess. Þetta kemur ekki á óvart, segir í frétt National Geographic um rannsóknina, en hefur ekki verið stutt jafn miklum og traustum gögnum fyrr en nú.

Salttegundirnar 39 eru frá 21 landi í Evrópu, Asíu, Norður- og Suður-Ameríku og Afríku. Tegundirnar þrjár sem ekki reyndust innihalda örplast eru hreinsað sjávarsalt frá Taívan, hreinsað steinsalt frá Kína og óhreinsað sjávarsalt frá Frakklandi. Mikill munur reyndist á örplastmengun hinna ólíku salttegunda, meðal annars eftir uppruna þeirra. Almennt var mest af örplasti í asísku salti og allra mest í vinsælu, indónesísku salti. Plastmengun er gríðarleg á ströndum Indónesíu – sem eru samtals nær 55.000 kílómetrar að lengd – og er plastmengun hvergi meiri en þar, að Kína undanskildu, samkvæmt annarri rannsókn frá 2015. Nýja rannsóknin, hverrar niðurstöður voru birtar í vísindatímaritinu Environmental Science and Technology í þessum mánuði, leiddi ennfremur í ljós að almennt má segja að mest sé af örplasti í sjávarsalti, þá í salti sem unnið er úr stöðuvötnum en minnst í steinsalti.

Rannsakendur áætla einnig, út frá niðurstöðum sínum, að meðalmanneskjan innbyrði um það bil 2.000 einingar örplasts á ári hverju í gegnum saltneyslu. Lítið er enn vitað um möguleg áhrif örplasts á heilsu manna. Í grein National Geographic segir að niðurstöður safnrannsóknar vísindamanna við York-háskóla í Englandi, sem birtar voru fyrr í þessari viku, séu þær helstar að ekkert sé hægt að fullyrða um hvort og þá hver þau áhrif séu þar sem allt of margar og stórar gloppur séu í þekkingu vísindaheimsins þar á.

Safnrannsóknin tekur saman niðurstöður 320 annarra rannsókna og Alistair Boxall, prófessor við York-háskóla, segir fátt benda til þess, enn sem komið er, að örplast hafi umtalsverð, neikvæð áhrif á heilsu fólks. Mun meiri og víðtækari rannsókna sé hins vegar þörf á þessu sviði.