Pure North Recycling endurvinnur plast með ,,grænni orku” það er gufuorku og raforku frá gufuaflsvirkjun með það að markmiði að fullvinnslan skilji eftir sig sem minnst eða ekkert kolefnisspor. Í dag er Pure North Recycling eina fyrirtækið á Íslandi sem endurvinnur plast að fullu. Vinnsluaðferðin er einstök á heimsvísu þar sem jarðvarminn er nýttur í vinnsluna sem bæði gerir ferlið umhverfisvænna og rekstrarkostnaður er lægri.
Fyrirtækið er fjögurra ára gamalt og endurvinnur megnið af því heyrúlluplasti sem tilfellur á Íslandi eða um 2000 tonn á ári. Pure North Recycling er að taka sín fyrstu skref í endurvinnslu á harðplasti og stefnir að því að endurvinna að auki umbúðaplast en 95% af óendurunnu umbúðarplasti er flutt úr landi. Það er því til mikils að vinna en áætlað er að fyrir hvert tonn sem endurunnið er af plasti sparist um 1,8 tonn af olíu.
Plastmengun er alvarlegt umhverfisvandamál af mannavöldum sem fer sívaxandi. Plastmengun er farin að hafa áhrif á vistkerfið í heild og ekki síst vistkerfi hafsins. Íslendingar eiga mikið undir í sjávarútvegi og ferðaþjónustu með ósnortna náttúru og nú ógnar þessi þróun afkomu okkar og velferð.